Syrgir þú ástvin ?

Að missa einhvern, sem maður elskar og/eða elur önn fyrir, vegna sjálfsvígs, er eitt versta áfall sem hugsast getur. Enginn er viðbúinn slíku og einungis þau sem reynt hafa á eigin skinni vita hvað slíkt hefur í för með sér og hvaða tilfinningar fylgja í kjölfarið.

Í fyrstu, þ.e.a.s. á fyrstu vikum og mánuðum sorgarferlisins, munuð þið þarfnast eins eða alls af eftirfarandi: Að gera ykkur grein fyrir að tilfinningar ykkar eru eðlilegar; að verða ykkur úti um stuðning; að læra meira um sjálfsvíg; að öðlast innsýn í eigin missi og að minnka hættuna á öfgafullum sorgarviðbrögðum, t.d. að kaffæra ykkur í vinnu, læsa tilfinningar ykkar inni eða drekka áfengi í óhófi.

Nú spyrjið þið sjálfsagt hvernig líðan ykkar í augnablikinu geti mögulega talist „eðlileg“. En það er hún einmitt. Það sem gerðist og sá/sú sem þið misstuð var úr takti við tilveruna. Sjálfsvíg er óeðlilegasti dauðdagi sem hugsast getur og missir í kjölfar slíks dauðdaga sá óeðlilegasti. Tilfinningar ykkar eru fullkomlega eðlilegar, en það þarf að vinna rétt úr þeim. (ástvinamissir vegna sjálfsvígs. bls. 3. – 5.)

Hér er að finna fræðsluefni og upplýsingar um stuðning sem aðstandendur þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi geta fengið.